Húsið okkar í Pyreneafjöllunum í Frakklandi er til sölu

Við erum búin að eiga þetta kósý hús í 8 ár og erum að selja það til þess eins að kaupa gamalt gripahús í næsta nágrenni (une grange) til að gera upp. Húsið sem er í 630 m yfir sjávarmáli er 143 m² að gólffleti,  mundi teljast 3ja herbergja og er með gistirými fyrir 4-8 manns. Hentar æðislega fyrir hjóla, skíða og útivistarfólk. Ekki gleyma að skoða myndasafnið neðst á síðunni 😉

VERÐ…
Kaupverð greiðist í evrum 159.000 EUR. (Skráð á fasteignasölum á 168.000 EUR). Til viðbótar við það koma uþb 10.000 EUR sem greiða þarf í nokkurs konar stimpilgjald/skatt við fasteignaviðskipti í Frakklandi. Öll fasteignaviðskipti í Frakklandi eru innt af hendi af opinberum aðila sem kallast “Notaire”. Fasteignasölurnar gera því ekkert annað en að koma kaupunum á en sjá ekki um gerð kaupsamninga.  Áður en gildur kaupsamningur kemst á er gerð heilmikil úttektarskýrsla á húsinu sem að liggja þarf fyrir áður en kaupin ganga í gegn. Fasteignaviðskipti í Frakklandi eru því tekin föstum tökum kaupendum mjög í hag.

HVAR ER ÞETTA…

Sjá mynd en hér er einni hlekkur á svæðið í google maps

LÝSING OG MYNDIR AF HÚSINU…
Húsið hlaðið úr steini og var upphaflega gripahús með hestum ofl. Við köllum þetta alltaf hesthúsið. Það er í raun nýtt þar sem að það var endurreist og gert að íbúðarhúsi fyrir um 9 árum. Þak og raflagnir og allt slíkt er því nýtt en sálin og steinninn í útveggjunum er yfir 200 ára gamall. Gengið er inn um gönguhurð á því sem að heitir formlega bílskúr en er ekkert annað en stórt flísalagt tómstundarými og þvottahús í leiðinni. Þarna er frábært að koma inn skítugur úr hjólaferð eða snjóugur af skíðum og þarna dittar maður að hjólum og græjum og þvær og þurrkar. Síðan er gengið inn í það sem að mætti kalla anddyri og í því er stiginn upp á aðalhæðina. Úr anddyrinu er líka gengið inn í læsanlega vel nýtta geymslu, kjörin til að geyma það sem að gott er að læsa inni ef húsið er leigt út til ókunnugra. Þegar gengið er upp á aðalhæðina er fyrst komið inn á lítinn pall og þar er hurð inn í alrýmið á aðalhæðinni. Öll aðalhæðin er flísalögð og í alrýminu er fyrst komið í setustofuhlutann síðan í borðstofuhlutann við eldhúshornið og innst og til hægri er sjónvarpshorn. Baðherbergi og salerni eru aðskilin á sömu hæð. Flestir útveggirnir eru sýnilegt grjót. Úr alrýminu er stigi upp á efstu hæð þar sem að eru svefnherbergi eitt til sinn hvorar handar. Annað er með þakglugga og hitt er með gluggum á gafli.

HELSTU KOSTIR HÚSSINS…
Húsið hentar best fyrir útivistarfólk á skíðum og hjólum eða gangandi og fólk sem vill ekki þurfa að hugsa um garð. Þorpið er með ólíkindum kyrrlátt á nóttunni en svo er göngufæri í iðandi mannlíf í Luchon. Frá húsinu eru 50 m út í göngustíga í skógi vaxinni fjallshlíð og að auki ógrynni af afþreyingarmöguleikum í næsta nágrenni.

TEIKNINGAR AF HÚSINU OG STÆRÐ…

Heildar gólfflötur eignarinnar er 143 m². Í Frakklandi er samt talað um flatarmál húsa með allt öðrum hætti en á Íslandi. Fyrst og fremst er talað um stærð í “lois Carrez” og “loi Boutin” en þá er búið að undanskilja bæði allt sem er undir 1,8m lofthæð (eins og á Íslandi) en einnig er búið að undanskilja öll rými á borð við geymslur, bílskúra, svalir, kjallara, auka-eldhús og slíkt. “Loi Carrez” fyrir þessa eign er 63 m² þar sem að öll jarðhæðin er í raun ekki talin með. Einnig eru notaðir 5 stuðlar til að endurmeta stærð eigna og gera samanburðarhæfa ef að svo má segja.

HÚSGÖGN OG FYLGIFÉ…
Eignin selst með eftirfarandi fylgihlutum: Sjónvarp, borðstofuborð, eldhúsborð með 6 stólum, örbylgjuofn, blandari, kaffivél, eldhúsáhöld og borðbúnaður og ýmsir ónefndir smáhlutir.

REKSTRARKOSTNAÐUR OG TEKJUR…
Á síðasta ári var fasteignaskattur (impôts fonciers) 575 EUR, útsvar (impôts loceaux) 684 EUR og tryggingar uþb 350 EUR. Við höfum leigt út húsið í vikuleigu 4-10 vikur ári á 400-500 EUR/viku. Tekjur af því hafa staðið undir rekstarkostnaði hússins.

AFÞREYING…
Það er ævintýralega mikið af afþreyingu og þjónustu í næsta nágrenni. Með því að skoða þennan lista þá er auðvelt að átta sig á því hvers vegna við völdum og höldum okkur við þetta svæði.

AFÞREYING….
Golfvöllur
Sundlaug
Tennisvellir
Minigolf
Körfuboltavellir
Klettklifursvæði
Klettaklifurhús
Gönguleiðir öll erfiðleikastig
Hjólaleiðir (racer)
Fjallahjólabrautir
Fjallabrunsbrautir
Gljúfraferðir (canyoning)
Rafting
Flugvöllur
Svifflug
Svifvængir (Parapont)
Skíðasvæði
SPA
Bogfimi
Háloftaþrautabraut
Stangveiði
Reiðhöll
Stjörnuathugunarstöð
Petangle
Listinn er ekki tæmandi

ÞJÓNUSTA (öll í um 1-3 km fjarlægð)…
Matvöruverslun
Stórmarkaður
Útimarkaður
Bakarí
Hjóla og skíðaleiga
Veitingastaðir
Krár
Kvikmyndahús
Upplýsingamiðstöð
Bílaleiga
Allt sem þarf
Listinn er ekki tæmandi


GAGNLEGAR ALMENNAR VEFSÍÐUR…
Afþreying í næsta nágrenni
Um götuhjólaleiðir
Um skíðasvæðið í Luchon
SPA Balnéa í Loudenvielle í næsta dal
Upplýsingamiðstöð ferðamála fyrir Luchon
Upplýsingamiðstöð í nágrannaþorpi
Upplýsingaveita fyrir Haute Pyrénées sem er stórt svæði í kringum húsið
Upplýsingamiðstöð ferðamála fyrir Haute Garonne sem er stórt svæði í kringum húsið alveg til Toulouse
Öll skíðasvæði í Pyreneafjöllunum
Allt um hjólamennsku allar gerðir af hjólum í Pyreneafjöllunum
Toulouse
Upplýsingaveita fyrir Vielha héraðið á Spáni (Spánn er 10 km frá húsinu)


EITT OG ANNAÐ…

HVERS VEGNA ÞARNA? Í nokkur ár leigðum við hús á hinum og þessum stöðum í Pyrenafjöllunum til þess eins að kynnast sem flestum stöðum þar og átta okkur á því hvar við vildum setja okkur niður. Við lágum líka yfir kortum og skoðuðum samgöngur og þjónustu og við komumst alltaf að sömu niðurstöðu…þetta uppfyllti flesta kostina.

SAMGÖNGUR Þetta er um 1½ klst frá Toulouse. Það er hægt að fljúga í gegnum París eða London eða aðrar borgir og síðan beint til Toulouse þar sem hægt er að leigja bíl eða taka lest. Það er líka hægt að fljúga til Parísar og taka síðan hraðlestina (TGV) niður til Toulose. Fyrir nokkrum árum gekk svefnlest (lest með kojum) frá París og alla leið til Luchon. Þessi lest var lögð niður en nú er í undirbúningi að koma henni aftur á laggirnar. Svefnlest hefur okkur þótt besti ferðamátinn því þá flugum við til Parísar og dingluðum okkur þar í eftirmiðdaginn. Stigum svo upp í svefnlestina kl 22:00 og vöknuðum á endastöðinni kl 07:30 í Luchon. Frá Toulouse til Luchon er bæði hraðbraut og síðan góður vegur sem að er opinn allt árið.

BAGNERE DE LUCHON Húsið stendur í litlu mjög vel reknu 600 manna bæjarfélagi sem að heitir St Mamet sem að liggur alveg að Bagnere de Luchon sem að er nokkurs konar Paris Pyrenafjallana en er oft kallað bara Luchon. Þar búa hins vegar um 2.600 manns og hægt að finna alla þjónustu á borð við banka, pósthús, verkstæði, byggingarvörur ofl. Það er ein mjög falleg breiðgata með verslunum, veitingastöðum og þjónustu. Hún heitir Alles d’étignes en við uppnefnum hana yfirleitt champs-Élysées og hún er í 12 mín göngufæri frá húsinu.

HJÓLREIÐAKEPPNIN TOUR DE FRANCE fer yfirleitt árlega í gegnum Luchon sem að er þá næturstaður í keppninni. Þið getið því rétt ímyndað ykkur hvort að svæðið hentar fyrir hjólamennsku.

SKÍÐASVÆÐIÐ er 2,2 km frá húsinu. Það er í 1465 til 2125 mys. Húsið okkar er í 630 mys og því er tekinn kláfur upp í 1800 mys. Það eru 80 hektarar af skíðasvæði, 32 km af skíðaleiðum, 28 leiðir, 180 snjóbyssur, 1 barna sleðabrekka, 13 skíðalyftur, ein 4 km gönguskíðaleið og einn sjópark.

NOKKRAR MYDIR ÚR GÖNGUFERÐUM OG ÆVINTÝRUM, ALLT Í NÁGRENNI VIÐ HÚSIÐ OG ÚR OKKAR EIGIN FERÐUM.


HAFA SAMBAND…
Þér er velkomið að hafa samband ef að þú ert með einhverjar vangaveltur. Bæði tölum við íslensku og frönsku og búum í Kópavoginum að öllu jöfnu. Heimasíminn er 5652406

Nadine 823 8859 netfang: nadinec [hjá] internet.is
Ingimundur 824 6642 netfang: ingimundur [hjá] internet.is
Svo má líka hafa samband í gegnum messenger á FB með því að smella hér.